English

Leiðbeiningar vegna greiðslu arðs

 

Upplýsingar um arðgreiðsluna

Útgefandi fyllir út eyðublað þar sem koma fram allar helstu upplýsingar um fyrirhugaða arðgreiðslu (sjá eyðublað hér að neðan).  Skráð félög skila eyðublaðinu til Nasdaq verðbréfamiðstöðvar á sama tíma og upplýsingarnar eru sendar á kauphöll. Óskráð félög senda verðbréfamiðstöðinni á sama tíma og upplýsingum er dreift til hluthafa.

Verðbréfamiðstöðin yfirfer upplýsingarnar frá útgefanda um fyrirhugaða arðgreiðslu og sendir upplýsingarnar til vörsluaðilana.

Að loknum hluthafafundi sendir útgefandi Nasdaq verðbréfamiðstöð staðfestingu eða upplýsingar um breytingar sem orðið hafa á arðgreiðslunni.

 

Framkvæmd

Nasdaq verðbréfamiðstöð sendir vörsluaðilum í tölvupósti upplýsingar um heildarstöðu í viðkomandi hlutafélagi á þeirra svæði í lok viðmiðunardags. 

Útgefandi sendir verðbréfamiðstöðinni skrá með upplýsingum um þá hluthafa sem rétt eiga á arði samkvæmt hluthafaskrá í dagslok á viðmiðunardegi. Skráin inniheldur kennitölu, fjölda hluta og arðgreiðslu á hluthafa. Útgefandi greiðir hluthöfum að frádregnum fjármagnstekjuskatti en getur tekið tillit til þeirra sem eru með undanþágu. Skráin skal berast verðbréfamiðstöðinni 5 dögum fyrir útborgunardag til yfirlestrar. Eftir það útbýr verðbréfamiðstöðin bráðabirgðaskrá og sendir vörsluaðilum (RS) sem yfirfara skránna og geta þá komið með athugasemdir eða samþykkt skránna. Útgefanda ber samkvæmt lögum að halda eftir og skila skatti af arðgreiðslunni.  Útgefanda ber að afla upplýsinga frá RSK um skattalega stöðu hluthafa. Vörsluaðilar geta, eftir að hafa fengið bráðabirgðaskrá um arðgreiðsluna, gert athugasemdir við skattalega meðhöndlun sinna viðskiptavina en útgefandi ákveður hvort þeir treysta sér til að taka tillit til þess. 

Í síðasta lagi tveimur dögum fyrir arðgreiðsludag sendir útgefandi endanlega greiðsluskrá til Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.   Í skránni eru upplýsingar um hluthafa, hversu marga hluti hann á og hversu mikið hann fær greitt í arð.   Eigi hluthafi eignir hjá fleiri en einum vörsluaðila, er greitt hlutfallslega efir fjölda hluta hjá hverjum vörsluaðila.   Sé hluthafi með eignir hjá 3 vörsluaðilum, getur þurft að greiða einum vörsluaðila einni krónu of mikið.

 

Dæmi:  VÍS greiddi  0,73 kr. á hlut í arð

Hluthafi á 1.000 hluti hjá 3 vörsluaðilum og á rétt á 730 krónum í arð: 

KAU  454 hlutir – fær greitt 331,42 ISK

ISL    377 hlutir – fær greitt 275,21 ISK

TPL   169 hlutir – fær greitt 123,37 ISK 

Séu allar þess upphæðir rúnnaðar niður, fær hluthafinn einni krónu of lítið greitt í arð. Því mun VS bæta krónunni við á þann hlut þar sem minnsta rúnnun er og KAU fær því greiddar 332 krónur fyrir þennan hluthafa.      

Vörsluaðili lætur verðbréfamiðstöðina vita inn á hvaða vörslureikning greiðslan á að berast. Reikningurinn verður að vera á kennitölu vörsluaðilans.  

 

Arðgreiðsludagur

Að morgni arðgreiðsludags, fyrir kl. 10:00, leggur útgefandi heildarupphæð arðgreiðslunnar í einni tölu inn á arðgreiðslureikning á kennitölu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hjá Arion banka og lætur verðbréfamiðstöðina vita að arðgreiðslan sé tilbúin.

Verðbréfamiðstöðin millifærir til vörsluaðila í einni tölu fyrir þá hluthafa sem eru í vörslu á hverjum stað.

Vörsluaðili greiðir hluthöfum arðinn á arðgreiðsludegi.  Ef vörsluaðili getur ekki greitt, t.d. vegna þess að greiðsla barst ekki, skal vörsluaðilinn láta verðbréfamiðstöðina vita.

 

     Tilkynning um arðgreiðslu